Félagslegt umhverfi barneigna

Enn þann dag í dag kemur ríkið ekki til fulls á móts við útivinnandi konur í Evrópu. Í Þýskalandi vinnur hátt hlutfall kvenna hlutastarf til þess að samræma hlutverkin tvö. Mayer og Schulze (1993) komast að því að fyrir vestur-þýskar konur skapar það að stofna fjölskyldu togstreitu milli þess að verða móðir og að verða framakona en austur-þýskar konur kjósa heldur að blanda hlutverkunum saman, ef þær geta. Muninn má rekja til ólíkra viðhorfa til launaðrar vinnu kvenna í sögu þessara tveggja hluta landsins.

Líkt og konur annars staðar í Mið- og Austur-Evrópu tóku konur í Austur-Þýskalandi þátt í samfélaginu bæði sem eiginkonur og mæður og sem starfsmenn. „Útivinnandi mömmu“ fyrirmyndin varð til innan fjölskyldunnar, í fjölmiðlum og var stjórnað af ríkinu, sem studdi, hvatti og jafnvel skyldaði konur til þess konar lífsstíls. Eftir sameininguna hafa austur-þýskar konur hins vegar þurft laga sig að vestur-þýsku fyrirmyndinni. Þrátt fyrir að fá meira persónulegt frelsi og meiri frítíma en áður fá þær á móti minni stuðning frá ríkinu, sem breytir áherslum þeirra. Til dæmis dregur efnahagsleg nauðsyn þess að vinna úr hvatanum til þess að eignast börn og því krefjast breytingarnar sem urðu eftir sameininguna meiri skipulagningar á því hvenær eigi að stofna fjölskyldu og ákvarðanatöku um hvort eigi að stofna hana yfir höfuð. En þótt enginn vafi leiki á að fjölskyldu- og félagsstefna í Austur-Þýskalandi hafi verið betri gagnvart konum heldur en núgildandi stefna í Þýskalandi var hún byggð á alræði og feðraveldi. Það sama gildir um önnur fyrrum kommúnistaríki í Austur-Evrópu. Félagskerfi þeirra var mun kvenvænna en það kerfi sem tók við, en það var einnig þvingandi og var ekki skipulagt á forsendum kvenna.

Dagvistunarkerfið
Dagvistunarkerfi fyrrum kommúnistaríkjanna átti erfitt uppdráttar í nýja markaðshagkerfinu. Það var erfitt að réttlæta dýrt og umfangsmikið kerfi þegar efnahagur ríkjanna var svo bágur. Það var þó ekki eina ástæða þess að dagvistunarkerfi lögðust svo til af. Dagvistun barna var í algjörri andstöðu við hugmyndafræði Vestur-Þýskalands, þar sem það þótti nauðsynlegt heilsu barnanna vegna að mæður væru heimavinnandi. Í Austur-Þýskalandi árið 1989 voru hins vegar 80,2% barna í dagvistun fyrir börn til þriggja ára aldurs, 95,1% á leikskólum fyrir þriggja til sex ára og 81,2% barna voru í vistun eftir skólatíma fyrstu fjögur árin í grunnskóla. Eftir sameiningu Þýskalands dró mjög úr á dagvistunarúrræðum fyrir foreldra í Austur-Þýskalandi, þar sem hugmyndir Vestur-Þýskalands urðu ofan á.

Í Tékkóslóvakíu, undir kommúnisma, voru 95% barna í leikskóla en þar voru mun færri í dagvistun fyrir yngri aldurshópinn, þar sem slíkar stofnanir voru ekki vel séðar þar í landi. Við innreið markaðshyggju hefur hlutfallið lækkað því barnagæsla er ekki lengur rekin af ríkinu og einkadagvistun er ýmist of dýr eða of léleg að mati foreldra. Að sama skapi voru nánast öll börn í Búlgaríu, við upphaf tíunda áratugarins, á aldrinum þriggja ára til sex ára í leikskóla en nú ríkir sama ástand og annars staðar og þar hafa eldri konur í mörgum fjölskyldum hlaupið undir bagga en það er ljóst að þetta fyrirkomulag á þátt í því hversu mikið fæðingartíðni í Búlgaríu hefur lækkað síðan árið 1989. Það sama má segja um Pólland þar sem dagvistunum og leikskólum var einnig lokað vegna slæmrar efnahagslegrar stöðu landsins.

Lýsing Heitlinger (1993) á því hvernig það kom til að dagvistun barna í Tékklandi og Slóvakíu varð einkavædd eftir fall kommúnismans gefur góða hugmynd um hvernig fór fyrir dagvistun og þar með konum í mörgum fyrrum kommúnistaríkjunum. Stuttu eftir breytingarnar voru ríkisstyrkir til dagheimila lækkaðir umtalsvert. Árið 1990 voru fjárframlög til dagvistunar lækkuð um 36,5% og til leikskóla um 86,3%. Lækkun fjárframlaga til dagvistunarúrræða mættu ekki mikilli mótstöðu, þar sem slíkar stofnanir voru óvinsælar fyrir. Hins vegar gegndu leikskólar fyrir börn á aldrinum þriggja ára til sex ára mikilvægu menntunar- og uppeldishlutverki og höfðu þarlendir sérfræðingar mælt með þeim fyrir félagsþroska barna. Skólarnir voru yfirleitt staðsettir í fallegum, gömlum húsum, sem höfðu áður verið í eigu ríkra manna. Foreldrarnir höfðu aðeins þurft að borga 200 tékkóslóvaskar krónur á mánuði en raunkostnaður var 1500-2000 krónur fyrir hvert barn. Eftir stjórnarskiptin þóttu eðli og magn slíkra ríkisstyrkja vera óeðlileg auk þess sem hægt var að leigja húsnæðið nýju fyrirtækjunum sem verið að var að setja á fót. Afstaða nýrra stjórnvalda til leikskóla var sú að þeir væru „óhagstæðar kommúnískar stofnanir“ og kynnt var til sögunnar eins konar ríkisstyrkt einkavæðing þeirra, þrátt fyrir skýr dæmi meðal annars frá Kanada hafi sýnt að það sé nánast ómögulegt að einkavæða leikskóla ef gjaldið, sem foreldrar borga, eigi vera viðráðanlegt. Þar fyrir utan standi einkaaðilar ekki í röðum til að fá að opna leikskóla.

Staða foreldra, og þá sérstaklega kvenna var því öllu verri eftir fall kommúnismans hvað varðar dagvistun barna. Það að dagvistun væri nánast ekki til hafði margvísleg áhrif á getu kvenna til þess að geta unnið fyrir sér og fjölskyldu sinni, það átti sérstaklega við um einstæðar mæður.

Fólksfækkunarvandamálið
Líkt og í Búlgaríu jókst fæðingartíðni ekki í öðrum fyrrum kommúnistaríkjum eftir breytingarnar. Konur voru undir enn meira álagi en áður, því nú var dagvistunarkerfið í molum og atvinna var ekki lengur tryggð. Konum var enn frekar mismunað á atvinnumarkaðnum og sífellt fleiri völdu að fresta eða sleppa barneignum.

Frá sameiningu og fram á miðjan tíunda áratug lækkaði tíðni giftinga og barneigna í austurhluta Þýskalands um helming. Örlítil hækkun varð síðar á áratugnum en tölurnar hafa haldist jafnar síðan. Hullen (1998) komst að því að Vestur-Þjóðverjar höfðu byrjað að fresta því að stofna fjölskyldur áratugum fyrr. Austur-Þjóðverjar byrjuðu hins vegar ekki á því fyrr en eftir árið 1990 (sbr. Adler, 2002). Þótt margt hafi breyst í augum kvenna og ungar konur hafi hagað lífi sínu á margan hátt öðruvísi heldur en mæður þeirra, mátti greina einn áberandi þátt sem virðist hafa haldist milli kynslóða og það er tvöfalt líf, vinnu og fjölskyldu. Í dag leggja ungar konur þó meiri áherslu á rétta tímasetningu og að „njóta lífsins“ áður en börnin koma.

Seidenspinner og félagar (1996) komust að því í langtímarannsókn á ástæðum þýskra kvenna til að fresta barneignum að munur var á austur- og vestur-þýskum konum. Fyrir austur-þýskar konur var efnahagslegt sjálfstæði forsenda barneigna en fyrir vestur-þýskar konur var skortur á barnagæslu mikilvæg hindrun. Niðurstaða Seidenspinner var sú að breytingarnar á lífi austur-þýskra kvenna eftir sameiningu væru ekki merki um sjálfstætt val um að „nútímavæðast“, það er að segja að fresta barneignum, heldur væru þessar breytingar á viðhorfum tímabundnar, breytilegar og gerðar af nauðsyn (sbr. Adler, 2000).

Sérstaka athygli vekja ólíkar forsendur austur- og vestur-þýskra kvenna. Austur-þýskar konur hafa jákvæða forsendu, efnahagslegt sjálfstæði, fyrir barneignum en vestur-þýskar konur neikvæðar, skort á barnagæslu. Ef til vill má rekja það til ólíkra efnahagslegra aðstæðna milli austur- og vesturhluta Þýskalands. Vestur-þýskar konur skorti því ekki peninga til að greiða fyrir barnagæslu heldur fleiri leikskólapláss. Austur-þýskar konur skorti hins vegar efnahagslegar forsendur þess að borga fyrir barnagæslu. Eins er möguleiki að þar sem í Austur-Þýskalandi er hefð fyrir því að konur vinni fyrir sér, sé það eðlilegt þar að þær séu efnahagslega sjálfstæðar þegar þær eignast börn en þar sem konur í Vestur-Þýskalandi hafa vanist því að eiginmaður þeirra sé fyrirvinna heimilisins sé það ekki mikilvæg forsenda í þeirra augum.

Cooke (2004) kemst að því að líkurnar á öðru barni í austurhluta Þýskalands aukist til muna ef faðirinn er fyrirvinna heimilisins. Það er óháð þátttöku föðurins í heimilisstörfum. Ef báðir foreldrar eru útvinnandi stjórnast ákvörðunin um að eignast annað barn af því hversu mikinn þátt faðirinn tekur í heimilisstörfum og að, líkt og niðurstöður Seidenspinner sýndu, mæðurnar hafi nægilega há laun til þess að borga fyrir auka barnagæslu. Rekur Cooke orsakirnar til þess að í Þýskalandi séu engin félagsleg úrræði sem styðja útivinnandi mæður. Það voru engin merki um að staðalímyndin um karlmanninn sem fyrirvinnu heimilisins hafi haft áhrif í austurhluta Þýskalands. Hins vegar hafi hugmyndin um að fresta stofnun fjölskyldu haft áhrif.

Fóstureyðingar
Í óörygginu sem ríkti í Austur-Evrópu stuttu eftir sameininguna fjölgaði fóstureyðingum og ófrjósemisaðgerðum. Mikið atvinnuleysi ríkti, laun lækkuðu, dagheimilum var lokað, getnaðarvörnum var ekki lengur dreift frítt til kvenna og dæmi voru um að atvinnurekendur hvettu til ófrjósemisaðgerða. Á sama tíma breyttist umræðan um fóstureyðingar og varð líkari umræðunni sem á sér stað í Bandaríkjunum. Hún fjallaði meira um siðferði þess að eyða fóstri, en ekki um vandamál sem fylgja fóstureyðingum fyrir konur og áhyggjum af fólksfækkun. Tveir pólar takast á. Annars vegar þeir sem styðja val kvenna og hins vegar þeir sem styðja rétt fóstursins til lífs. Tilkoma nýrra trúarhópa kaþólikka og mótmælenda, sem stofnaðir hafa verið í mörgum fyrrum kommúnistaríkjum, hafa styrkt málstað þeirra sem eru á móti fóstureyðingum.

Í Tékkóslóvakíu brást ríkisstjórnin við með því að mynda nefnd um málið. Það var þó ljóst að í ríki þar sem 180.000 löglegar og ólöglegar fóstureyðingar voru framkvæmdar árlega var ekki hægt að skrúfa algjörlega fyrir þær á einu bretti. Niðurstaðan varð sú að fóstureyðingar voru áfram leyfðar í Tékkóslóvakíu. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2002 um fóstureyðingastefnur í heiminum kemur fram að:

„Tíðni fóstureyðinga í Slóvakíu hækkaði frá 30,5% árið 1984 í 43,1% árið 1988. Hins vegar, lækkaði tíðnin mikið á tíunda áratugnum. Hún var áætluð um 19,7 fóstureyðingar á hverjar 1000 konur á aldrinum 15-44 ára árið 1996. Ríkisstjórnin áætlaði heildartíðni fóstureyðingar 4,9 prósent árið 1999“ (Sameinuðu þjóðirnar, 2002).

Þegar Austur- og Vestur-Þýskaland var sameinuð urðu heitar umræður um fóstureyðingar. Fyrst og fremst snérust þær um það hvort konur í austurhlutanum þyrftu að gangast undir íhaldssamari lög Vestur-Þýskalands eða öfugt.

„Lagalega umræðan um fóstureyðingar er hluti af því að endurskilgreina félagslegt hlutverk þýskra kvenna, að kynna aftur til sögunnar trúarleg sjónarmið í fyrrverandi kommúnista kerfinu, halda slíkum gildum í vestrinu, og að viðhalda stjórn ríkisins yfir barnsburðargetu kvenna“ (Funk, 1993: 198).

Í byrjun var ákveðið að ólík löggjöf fyrir austur og vestur myndu gilda í tvö ár, en eftir það yrði að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Málamiðlunin voru lög sem kváðu á um skyldubundna ráðgjöf fyrir konur þegar þær sækja um fóstureyðingu, en lokaákvörðunin lægi hjá konunni sjálfri og hún þyrfti ekki að ræða persónuleg mál sín eða gefa upp ástæðu fyrir fóstureyðingunni. Undir áhrifum frá löggjöf fyrrum Austur-Þýskalands kváðu nýju lögin einnig á um að öll börn ættu rétt á leikskólaplássi við þriggja ára aldur og að konur yngri en 21 árs ættu að fá getnaðarvarnarpilluna ókeypis. Skylt var að hafa bæði trúarlegar og veraldlegar ráðgjafamiðstöðvar um fóstureyðingar í hverju fylki. Gallinn við það ákvæði var að trúarlegar ráðgjafamiðstöðvar áttu auðveldara með að afla fjár og voru augljóslega ekki hlutlausar í afstöðu sinni til fóstureyðinga. Árið 1991 voru 51% ráðgjafamiðstöðva í Austur-Evrópu trúarlegar, þrátt fyrir að íbúarnir væru að meirihluta til trúlausir.

Búlgaría sker sig úr en þar eru fóstureyðingar ennþá mjög algengar og eru ekki litnar hornauga. Þar er hlutfall fóstureyðinga hærra heldur en fæðinga. Þær eru hins vegar aðeins fríar ef konan er undir lögaldri eða hefur verið nauðgað en eru svo ódýrar að langflestar konur hafa efni á að gangast undir slíka aðgerð.

Fæðingarorlof og mæðrastyrkir
Fæðingarorlof og mæðrastyrkir í fyrrum kommúnistaríkjum hafa í flestum tilfellum verið skýrasta dæmið um áhrif arfleifðar kommúnismans. Konur og foreldrar, njóta oft sterkari réttar til lengra orlofs, verndun á starfi meðan á því stendur og til bótagreiðslna. Virðist þessi málaflokkur njóta sérstaklega mikils fylgis miðað við aðra sem snúa að kynjajafnrétti, þrátt fyrir atlögur markaðshyggjuaflanna. Til dæmis þurfti félagsmálaráðuneytið í Búlgaríu að láta undan þrýstingi frá fjármálaráðuneytinu, Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í átökum um fæðingarorlof.

Í Ungverjalandi gilti regla um starfsvernd á meðan á fæðingarorlofi stóð, en eftir að kommúnismans féll var reglan afnumin. Þær konur sem höfðu verið í fæðingarorflofi á meðan breytingarnar gengu yfir misstu því flestar fyrra starf sitt. Þrátt fyrir það hafa ýmis félagsleg réttindi kvenna frá fyrri tíma haldist. Til dæmis er staða kvenna í Búlgaríu enn vernduð í þrjú ár eftir barnsburð og ef þær vilja snúa aftur út á vinnumarkaðinn áður en þrjú ár hafa liðið má faðir barnsins taka feðraorlof restina af tímabilinu, þótt það gerist nánast aldrei.

Petrova (1993) kemst að því að 64% búlgarskra kvenna þótti þriggja ára fæðingarorlof vera nægilegt. Hinar vildu lengja leyfið enn meira. Meirihluti kvenna vildu komast út á vinnumarkaðinn aftur. Hluti af ástæðunni gæti verið sú að laun kvenna eru of lág til þess að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þeirra, þá sérstaklega við skilnað. Í þeim tilvikum þurfa konur með börn oft að leita sér aðstoðar annarra, því meðlög með börnum eru mjög lág. Í dag geta búlgarskar konur tekið alls 135 daga í barneignaleyfi með möguleika á framlengingu til tveggja ára. Á meðan 135 daga barneignaleyfinu stendur fá konur full laun en eftir það fá þær lágmarkslaun og barnabætur frá ríkinu en sú greiðsla dugir skammt, þá sérstaklega fyrir konur í þéttbýli. Konur geta einnig tekið eitt ár í launalausu leyfi en þar sem atvinnuleysi er hátt og samkeppnin um störf mjög mikil hafa þessi verndandi lög öfug áhrif á samkeppnisstöðu kvenna og er þeim mismunað á grundvelli laganna. Aðrar lagabreytingar líkt og þær að leyfa viðskiptaferðalög til annarra landa, sem var bannað undir kommúnisma, hefur einnig veikt samkeppnisstöðu kvenna á vinnumarkaði þar sem þær komast síður frá skyldum sínum gagnvart heimili og börnum.

Konur í Tékkóslóvakíu voru vanar félagslegri verndun móðurhlutverksins. Þær höfðu vanist því að hafa úr ýmsum möguleikum að spila hvað varðar þjónustu og bætur. Það gaf þeim ákveðið val um hvernig þær tvinnuðu saman launaða vinnu og móðurhlutverkið. Árið 1990 voru lög um barnabætur víkkuð út til kvenna sem áður höfðu ekki notið þeirra. Konur sem áttu aðeins eitt barn og konur sem höfðu aldrei unnið fengu nú bætur líka auk þess sem feður gátu einnig sótt um barnabætur í fyrsta sinn. Það að gera fæðingarorlof og barnabætur hlutlaust gagnvart kyni var mikilvægt skref í átt að jafnrétti. Hins vegar er eðli slíkra úrbóta að á meðan greiðslurnar eru flatar og upphæð þeirra fyrir neðan lágmarkslaun eru litlar líkur að feður, sem jafnan hafa hærri laun, nýti sér möguleikann.

No comments: