Stjórnmálaþátttaka kvenna

Bunce (1995) sagði að ástandið eftir kommúnisma hafi verið miklu meira en einungis breytingar yfir í lýðræði, það hafi verið bylting sem næði til stjórnmála, efnahags og samfélagsins (sbr. Lafont, 2001). Stéttabarátta var ofar öllu í kommúnísku samfélagi og var lögð áhersla á að öreigar tækju höndum saman gegn kúgunarvaldinu. Innan þeirrar hugmyndafræði var ekki svigrúm fyrir aðra réttindabaráttu, svo sem kvenréttindabaráttu. Líkur benda til þess að enn séu slík viðhorf ríkjandi í fyrrum kommúnistaríkjum en forgangsröðunin hefur breyst. Nú er mikilvægast að byggja upp og vinna að því að koma á lýðræði. Á meðan er enginn tími fyrir kvenréttindabaráttu. Todorova (1993) segir viðhorf sem þetta fela í sér óskhyggju. Í fyrsta lagi felur það í sér að kvenréttindi geti aðeins þróast þar sem ríkir efnahagslegt og félagslegt jafnvægi. Ef svo er væri eins hægt að segja að lýðræði geti aðeins þróast í slíku jafnvægi. Í öðru lagi gerir þetta viðhorf ráð fyrir forgangsröðun ólíkrar baráttu, fyrst lýðræði þá kvenréttindi. Þetta minnir óneitanlega á þá tálsýn kommúnista að kynjajafnrétti yrði að veruleika þegar kommúnisminn hefði náð fullum þroska.

Þótt breytingarnar yfir í markaðshagkerfi hafi vissulega að mörgu leyti verið austur-evrópskum konum erfiðar, þá hefur gleymst að athuga hugsanleg jákvæð áhrif frá arfi kommúnískrar hugsunar á hina nýju hugmyndafræði. Í stað þess að gera ráð fyrir því að áhrif markaðshyggju muni hafa sömu áhrif í Mið- og Austur-Evrópu og hún hefur á Vesturlöndum er hægt að gera ráð fyrir því að breytur líkt og kommúnísk fortíð hafi áhrif á val fólks því „áratuga reynsla sem var undanfari breytinganna verður ekki þurrkuð út með falli múrs; minning og reynsla búa innra með einstaklingunum sem eru orðnir nýtt viðfangsefni markaðshagkerfis í Mið- og Austur-Evrópu“ (Ghodsee, 2004).

Áhrifin af jafnréttisstefnu kommúnista létu þó á sér standa í fyrstu. Í Póllandi voru konur 23% þingmanna milli áranna 1980 og 1985, en aðeins 9% eftir kosningarnar haustið 1991. Þegar Tékkóslóvakía var aðskilin í tvö ríki, árið 1993, hafði stjórnmálaþátttaka kvenna í stjórnmálum minnkað. Á tékkneska þinginu voru konur 13% þingmanna en á því slóvaska voru þær 12,7%. Konur höfðu aðeins verið 10% fulltrúa í sameiginlegu þingi tékkóslóvaska sambandsríkisins árið áður, eða 30 af 300 fulltrúum. Engin kona leiddi neinn af samtals 40 stjórnmálaflokkum ríkjanna. Í spurningakönnun sem gerð var innan tékknesks stjórnmálaflokks í október 1991 kom í ljós að 89% aðspurðra héldu að flokkurinn myndi tapa ef kona leiddi flokkinn og konur voru oftar á þeirri skoðun en karlar. Í Ungverjalandi voru notaðir kynjakvótar í ungverska þinginu í tíð kommúnista. Konur voru því yfirleitt 20-30% þingmanna, en engin þeirra var í nefnd eða í embætti sem gat talist hafa veruleg pólitísk völd. Þetta mynstur hélst eftir fall kommúnismans. Feðraveldið virkaði enn, og konur voru ennþá álitnar fyrst og fremst hafa hefðbundnu hlutverki að gegna innan fjölskyldunnar. Árið 1992 hafði aðeins ein kona verið ráðherra í Ungverjalandi. Aðeins 28 þingmenn af 386 voru konur, þar af aðeins fimm sem voru kosnar í eigin kjördæmi. Hinar 23 fengu þingsæti sín í gegnum annað kerfi stjórnmálaflokkanna og báru því ekki sömu ábyrgð.

Staðalímynd pólskra kvenna við upphaf tíunda áratugarins fól í ekki í sér virka þátttöku þeirra í stjórnmálum. Það kom skýrt fram þegar Kristilegi þjóðarflokkurinn, sem var þá á þingi, lagði fram frumvarp um að banna fóstureyðingar í Póllandi og það var samþykkt. Árið 1986 voru aðeins 11%, miðstjórnar pólska verkamannaflokksins, konur. Eftir kosningarnar 1991 var engin kona í ríkisstjórninni. Á sveitastjórnarstiginu töldu konur 11% en aðeins 6,4 % voru í stjórnunarstöðum.

Þótt það líti út fyrir við séum að snúa aftur til stöðu kvenna í byrjun aldarinnar í Póllandi, er það aðeins hluta til satt. Mikilvægt og jákvætt hlutverk verður spilað af reynslunni sem kom til vegna pólitískt mótaðs “jafnréttis” beggja kynja síðan 1945, þrátt fyrir að það hafi verið sett á einræðislegan hátt og mjög gallaðan. Pólitíska og efnahagslega breytingin sem á sér stað í Póllandi, hversu neikvæð sem hún kann að virðast fyrir konur, ætti að vera álitin aðeins sem þáttur sem breytir ferlinu við að ná kynjajafnrétti (Titkow, 1993: 255).

Þegar lýðræði komst á í Búlgaríu árið 1989 voru aðeins 34 konur (8,3%) kosnar á þing í fyrstu almennu þingkosningunum í júní árið 1990. Kosningarnar í október 1991 breyttu þessu hlutfalli ekki. Í kosningunum árið 1992 komust aðeins þrjátíu og tvær konur á þing af samtals fjögur hundruð manna þingi. Fyrir breytingarnar höfðu þær verið um 21% en allan tíunda áratuginn voru þær um 10%. Árið 2001 varð breyting á og eru þær núna 26,6%, sem þá var hæsta hlutfall kvenþingmanna í fyrrum kommúnistaríki. Nokkrar konur hafa verið í efstu embættum ríkisins og konur eru ráðandi í geira frjálsra félagasamtaka. Ástæða er því til að ætla að fyrrum kommúnistaríkin munu líkjast Vesturlöndum hvað varðar stjórnmálaþátttöku kvenna, því þar sem þátttaka kynjanna var ekki jöfn undir kommúnisma hefur arfleifðin ekki áhrif á stjórnmálaþátttöku kvenna í nýju stjórnkerfi.


Kvenréttindahópar og samtök

Það urðu miklar breytingar við stjórnarskiptin en aðstæður kvenna breyttust ekki skyndilega árið sem kommúnisminn féll. Allt frá því á áttunda áratugnum höfðu íhaldsamar raddir heyrst. Konur áttuðu sig á því að staða þeirra væri slæm og margar fóru að halda því á lofti að lausnin á vandanum væri að hætta að vinna og hverfa aftur inn á heimilin. Þessar raddir urðu sífellt háværari og undirbjuggu það sem koma skyldi með innreið kapítalískrar hugsunar. Eftir breytingarnar höfnuðu kvennasamtök kommúnískum bakgrunni sínum í stað þess að byggja á því jákvæða sem hann hafði upp á að bjóða.

Grasrótarstarf kvenna hafði, eins og annarra, verið bannað og í staðinn voru stofnuð kvennasamtök innan kommúnistaflokksins. Slík samtök unnu samkvæmt flokkslínunni, en ekki endilega í þágu kvenna. Sú reynsla gerði margar mið- og austur-evrópskar konur tortryggnar í garð kvennasamtaka.

Kvenréttindabaráttan hefur tekið á sig ólíkar myndir í fyrrum kommúnistaríkjum. Í öllum tilvikum hefur reynst erfitt að takast á við þau vandamál sem steðjuðu að konum við breytingarnar. Havelková (1993) segir um gamla heimaland sitt, Tékkóslóvakíu:

„Skorturinn á áhuga á vandamálum kvenna á rætur sínar að rekja til þess einkennis að setja alltaf almenn mannleg vandamál ofar sérstökum kyntengdum málum, viðhorf sem var styrkt af pólitískri fyrir-byltingar mótstöðu, sem einblíndi á málefni pólitísks frelsis. Útgangspunkturinn að kyn sé náttúrulegt, ásamt sannfæringunni um að frelsun kvenna hafi verið náð og að enginn hafi í raun hagnast á því, þetta allt dregur úr athyglinni á málefnum kvenna“ (Havelková, 1993: 65).

Eftir flauelsbyltinguna í Tékkóslóvakíu hafa meira en sjötíu grasrótar kvenréttindahópar verið settir á fót. Þeir hafa hins vegar átt í vandræðum með dræma þátttöku, þeir fá litla athygli stjórnvalda og eiga í erfiðleikum með fjármögnun. Flestir þeirra hafa að lokum lagst af. Auk þess hafa margir aðgerðasinnar, sem helguðu líf sitt kvenréttindum meðan kommúnistastjórnin ríkti, snúið aftur til fyrri starfa, sem þeim var áður meinað að stunda.

Þar sem kirkjan og trúarlegir stjórnmálaflokkar hafa fengið aukið gildi hafa þeir haft áhrif á kvenréttindabaráttuna. Leiðandi hlutverk kaþólsku kirkjunnar í Póllandi skilur femínísku hreyfinguna þar frá öðrum fyrrum kommúnistaríkjum. Kirkjan hefur sakað femínista um að vera of vinstrisinnaða, of líka kommúnistum með kröfum sínum um jafnrétti og rétti kvenna til að gangast undir fóstureyðingar, og of hægrisinnaða með kapítalískum sérþörfum og einstaklingshyggju. Áhrifin komu einnig fram í áðurnefndu dæmi þegar fóstureyðingar voru bannaðar í Póllandi stuttu eftir fall kommúnismans.

Í Búlgaríu er ekki mikil samstaða meðal kvenna og þar voru fá kvenréttindafélög í byrjun tíunda áratugarins. Þau fáu sem voru virk boðuðu íhaldssamar hugmyndir um hlutverk kvenna en ekki femínískar hugmyndir. Konur vinna helst innan stjórnmálaflokka en ekki þverpólitískt með konum sem hafa aðrar stjórnmálaskoðanir. Ennþá er talsverð neikvæðni í garð vestrænna femínista sem orsakaðist af þeirri orðræðu sem tíðkaðist fyrir fall kommúnismans. Þeir eru gagnrýndir fyrir að styðja gildi markaðshyggju og þar sem mörgum búlgörskum konur þykir stéttabaráttan enn þann dag í dag vera æðri annarri baráttu gegn misrétti hefur reynst erfitt fyrir vestrænar femínískar hreyfingar að ná til búlgarskra kvenna. Frjálsu félagasamtökin sem starfa við að kynna kvenréttindi í landinu eru oft í meiri samskiptum við önnur frjáls félagasamtök heldur en við búlgarskar konur.

Óljóst er hvort lýðræðisvæðing og markaðshyggja sé meðalið gegn kynjamisrétti. Konur í fyrrum kommúnistaríkja horfðu vonaraugum fram á veg við upphaf níunda áratugarins. Lýðræðið skyldi bjarga þeim og fyrsti vísir þess var að litlir hópar kvennasamtaka tóku að myndast. En samfélagsbreytingarnar minnkuðu ekki hroka, misrétti og óvirðingu gagnvart konum. Reynt var að breyta hinu hefðbundna skipulagi í tíð kommúnismans en það tókst ekki og nú er það snúið aftur. Konur verða sífellt minna áberandi í samfélaginu þar sem fjölmiðlar eru mjög karllægir.

Kvenkúgunin kemur meðal annars fram í mikilli aukningu á klámi. Undir kommúnisma urðu breytingar á kynjajafnrétti vegna opinberrar jafnréttisstefnu. Sá árangur sem náðist á þeim tíma hvarf árið 1989 þegar íhaldssamari gildi, sem höfðu skotið rótum, tóku yfir. Eins og búlgörsku fræðikonurnar Gavrilova, Merdzanska og Panova (1993: 20) orðuðu það „af því leiðir, að búlgarskar konur eru þrælar hefða feðraveldisins, afturhaldssamrar hugsunar, sýndar-sósíalisma, og lágra lífsgæða“.

No comments: