Atvinnuumhverfi kvenna

Vegna tæknilegra örðugleika verður að ýta á titil færslanna til þess að sjá þær í heild sinni.

Hröð umskipti urðu eftir fall kommúnismans á stofnunum og atvinnukerfi í Mið- og Austur-Evrópu. Í kjölfar breytinganna breyttust atvinnuaðstæður kvenna aftur vegna stefnubreytinga, endurskipulagningar á iðnaði og atvinnu og erfiðleika á atvinnumarkaðnum. Breytingarnar á atvinnumarkaðnum í fyrrum kommúnistaríkjunum eru áhugavert rannsóknarefni með tilliti til samskipta ríkjanna, markaðanna og þess hvernig konur koma að efnahagi samfélagsins. Tvisvar var nýju ríki og markaðsfyrirkomulagi komið fyrir í austrinu rétt eins og náttúrulegri tilraun á því hvernig áhrif stefnumótunar og stofnana hefur á kynjajafnrétti.

Við innreið markaðshyggjunnar inn í fyrrum kommúnistaríkin breyttust aðstæður á vinnumarkaði fyrir konur, en staða þeirra sem mæður og eiginkonur hélst óbreytt. Kolinsky og Nickel (2003) segja stöðu kvenna hafa versnað talsvert með tilkomu vestrænnar markaðshyggju. Ástæðuna telja þær vera þá að í fyrrum kommúnistaríkjunum hafi kynjajafnréttisbaráttan komið ofan frá og verið framkvæmd í gegnum ríkisstefnu ólíkt Vesturlöndum þar sem baráttan kom neðan frá, frá konunum sjálfum sem börðust fyrir réttindum kvenna. Þegar breytingarnar urðu blönduðust ólík vandamál ríkjanna varðandi kynjajafnrétti saman en ekkert þeirra leystist. Dæmi um það er frá sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands. Vestur-þýska kerfið kom ekki til móts við útivinnandi konur og austur-þýskar konur urðu að gangast undir þjónustuskerðingu. Enn þann dag í dag eru þýskar konur mun oftar heimavinnandi en í nágrannaríkjunum og má rekja það til þess að þýska kerfið gerir mæðrum erfitt fyrir að vera útivinnandi.

Árið 1989 voru konur í fyrrum kommúnistaríkjunum að meðaltali betur menntaðar heldur en karlar. Þrátt fyrir það voru þær aðeins í 14% stjórnunarstaða, þar af 65% í lægri stjórnunarstöðum, 25% í millistjórnunarstöðum og 10% í æðstu stjórnunarstöðum. Því betur sem konur voru menntaðar þegar breytingarnar urðu, því meira fengu þær úr starfi sínu og því ólíklegri voru þær til að gerast heimavinnandi (Heitlinger, 1993: 97).

Viðhorf til launaðrar vinnu kvenna
Undir kommúnisma var val kvenna og sjálfsákvörðunarréttur tekinn af þeim. Þær áttu ekki kost á því að velja eigin lífsbraut og eyddu öllum frítíma sínum í að sinna skyldum heimilisins þegar þær voru ekki að vinna skyldubundnar átta og hálfa klukkustund á dag.

„Búlgarskar konur gera sér grein fyrir því að rétturinn til þess að vinna, vera fjárhagslega sjálfstæður og sjálfum sér nægur eru óafturkræf mannréttindi, en innan ramma alræðislegs sósíalisma er þessi réttur líka skylda“ (Gavrilova o.fl., 1993: 20).

Eftir að kerfið féll tóku margar konur frelsinu fagnandi og vildu snúa aftur til gamalla hefða sem höfðu svo lengi verið bannaðar. Í Búlgaríu gengu ungar stúlkur og piltar í klaustur á ný og konur völdu í auknum mæli að vera heimavinnandi. Šiklová (1993: 76) sagði „[f]relsið tekur á sig ólíkar myndir. Þetta gæti gefið þá hugmynd að við séum að snúa aftur til feðraveldis, en þetta eru meira viðbrögð við nálægri fortíð okkar.“ Einhvern mun má þó sjá á milli viðhorfa þeirra fyrrverandi kommúnistaríkja sem eiga rætur í kaþólskri trú og þeirra sem voru mótmælendur fyrir kommúnisma. Það var þó ekki vegna þess að austur-evrópskar konur væru afturhaldsamari en aðrar konur, heldur vegna sögunnar. Í langan tíma urðu þær að vinna tvöfalda vinnu, innan og utan heimilis. Í mótstöðu við gamla kommúníska kerfið völdu þær og upphófu hefðbundin hlutverk kvenna sem mæður og eiginkonur.

Jafnvel þó konur vildu heldur fara aftur inn á heimilin við upphaf tíunda áratugarins voru ekki miklar líkur á að löggjöf eða stefna ríkjanna yrði á þá leið. Það má nefna þrjár ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi að alþjóðleg samtök, sem flykktust inn í löndin eftir að kommúnisminn féll, vildu tryggja jafnrétti og sjálfstæði kvenna með atvinnuþátttöku þeirra. Í öðru lagi vildu flest ríkjanna gjarnan komast inn í Evrópusambandið, en til þess þurfti að sýna fram á að jafnrétti kynjanna ríkti. Í þriðja lagi voru laun svo lág að tekjur beggja aðila voru nauðsynlegar til þess að lifa af.

Þrátt fyrir að sumar konur veldu hefðbundnari hlutverk í mótmælaskyni við alræðisstjórnina sem þær höfðu búið við, var vinnan fyrir langflestar konur frá fyrrum kommúnistaríkjum enn mjög mikilvæg og stór hluti sjálfsmyndar þeirra. Konur dæmdu jafnvel hver aðra út frá því hvort þær ynnu úti og hversu vel. Undir kommúnisma, þar sem líf fólks snérist um vinnu var hún ekki aðeins lífsviðurværi þeirra og sjálfsmynd heldur hafði hún einnig gríðarlegt félagslegt gildi. Vinnan var eini staðurinn þar sem fólk gat komið saman, spjallað og kynnst. Það hafði áhrif á þá ákvörðun meirihluta kvenna að vera útivinnandi, þar sem þær höfðu val, þrátt fyrir að það væri erfitt að samræma vinnuna heima og að heiman. Mið- og austur-evrópskar konur byggðu sjálfstraust sitt á vinnunni. Í spurningakönnun sem gerð var árið 1991 sögðust 76% prósent kvenna vinna til þess að sjá fyrir fjölskyldunni en 40% kvenna sögðust ekki vilja hætta að vinna, jafnvel þótt þær gætu það. Vinnan hafði því enn mjög mikið gildi fyrir flestar konur.

Viðhorfin héldust þau sömu eftir fall kommúnismans en forsendurnar voru ekki þær sömu eftir breytingarnar. Árið 1989 urðu ýmsar breytingar sem ógnuðu atvinnu kvenna og þátttöku þeirra í stjórnmálum og á opinberum vettvangi. Gott dæmi um það var niðurfelling á reglugerð í Póllandi sem verndaði starf einu fyrirvinnu heimilisins. Tilgangurinn með niðurfellingunni var að verja kerfið fyrir þeim sem misnotuðu það en breytingin kom í raun illa niður á einstæðum mæðrum. Annað dæmi er frá Tékklandi. Við upphaf tíunda áratugarins var hjónaband ennþá álitið vera besta leiðin fyrir ungar konur til þess að komast af. Ógiftar konur voru lægra settar í þjóðfélagsstiganum og þótti jafnvel betra að vera fráskilin heldur en einstæð. Slíkar hugmyndir tengdust ekki gamaldags hugsunarhætti heldur höfðu einfaldlega efnahagslegar ástæður. Á tímum kommúnista hafði ógift móðir lægri tekjur heldur en fráskilin móðir og hjón fengu stærri íbúðir heldur en ógift par. Í allri ringulreiðinni við breytingarnar vannst ekki tími til þess að breyta slíkum „smáatriðum“ strax. Þannig viðhéldust hefðbundnar hugmyndir sem þessar af hagkvæmnisástæðum. Þriðja dæmið er frá Búlgaríu. Árið 1992 var ákvæði um sömu laun fyrir sömu störf fjarlægt úr lögunum þar sem það þótti ekki henta í ríki með markaðshagkerfi. Þetta hafði í för með sér veikari stöðu kvenna í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.

Sameining Þýskalands endurspeglar hversu erfitt var að samræma ólík viðhorf sem höfðu myndast í austri og vestri. Þegar Þýskaland var sameinað árið 1990 kom í ljós að undir ólíkum stjórnarháttum ríkjanna tveggja hafði myndast gerólík stefna í kynjajafnréttismálum. Við sameininguna var hugmyndafræði Vestur-Þýskalands yfirfærð á Austur-Þýskaland. Þetta átti við um bæði hið opinbera og einkalífið. Austur-Þjóðverjar endurgerðu þó ekki vestur-þýska menningu heldur bjuggu einnig til sína eigin, sem þeir byggðu á fyrri reynslu og væntingum. Þetta átti sér í lagi við um konur og sjálfsmynd þeirra sem útivinnandi mæðra, sem enn í dag er ólík milli þessara tveggja hluta Þýskalands.

Kynbundin verkaskipting
Í skjóli jafnréttisins sem átti að ríkja undir kommúnisma komust karlmenn hjá því að bera ábyrgð gagnvart fjölskyldu sinni og höfðu raunar fáum skyldum að gegna gagnvart konu og börnum. Þetta „feðraveldisjafnrétti“ kom síðar í bakið á konum þegar frjáls atvinnumarkaður komst á. Í kerfi þar sem kvennastörf eru vel afmörkuð og mun verr metin en karlastörf eiga konur litla möguleika.

Karlar fengu fleiri tækifæri í nýja markaðshagkerfinu. Í Ungverjalandi, árið 1991, unnu mjög fáar konur við störf í einkageiranum, eða aðeins 6%, en vinna karla jókst á sama tímabili. Ungum og ómenntuðum konum var hættast við atvinnuleysi við upphaf breytinganna. Eins og Petrova (1993) sýnir fram á þá hélt slíkt misrétti áfram eftir að Sovétríkin féllu. Í rannsókn hennar á viðhorfum Búlgara til þeirra breytinganna sem höfðu orðið eftir fall kommúnismans kom í ljós að þrátt fyrir að fyrir að búlgarskar konur væru lagalega séð jafnar körlum og töldu helming vinnandi manna urðu þær fyrir misrétti á vinnumarkaði hvað varðar tegund atvinnu, tækifæri, laun og stöðuhækkanir. Árið 1990 var mikill fjöldi fyrirtækja stofnaður í Búlgaríu en aðeins 5,5% voru stofnuð af konum. Árið 1993 var atvinnuleysi kvenna 20% hærra heldur en karla en 70% kvenna kusu að vinna úti, jafnvel þótt maki þeirra aflaði nægra tekna.

Tafla 1. Viðhorf búlgarskra kvenna og karla til breytinganna árið 1993
konur % karlar % munur %*
Búast við að bæta nú lífskjör sín 8,1 13,1 5
Áhyggjur af því að missa vinnuna 43,1 35,8 7,3
Kjósa heldur vinna hjá ríkisreknu fyrirtæki 46,6 40,9 5,7
Kjósa heldur vinna hjá einkareknu fyrirtæki 22,3 33,8 -11,5
Engan áhuga á því að stofna eigið fyrirtæki 42,7 35,8 6,9
Þykja þau ekki hafa nein áhrif á eigið líf 32 25,5 6,5
Þykja lífið nú bjóða upp á fleiri tækifæri 16,9 26,7 -9,8
Trúa á guð 43,7 29 14,7
Þykja konur eiga að vera heimavinnandi 20 30 -10

*Jákvæð gildi sýna hærri prósentu kvenna og neikvæð sýna hærri prósentu karla í dálkinum lengst til hægri.

Aukinheldur kannaði Petrova viðhorf fólks þremur árum eftir breytingarnar (sjá töflu 1). Konur voru áberandi svartsýnni en karlar. Þær bjuggust síður við að bæta lífskjör sín, sem er í samræmi við bæði meira atvinnuleysi kvenna og litla möguleika þeirra til þess að fá áhrifamikil störf. Þeim þótti þær síður hafa áhrif á eigið líf. Það má rekja til þess að það að fylgja fyrirfram ákveðinni lífsleið var aðalsmerki kommúnískra ríkja og það hefur líklega áfram verið tilfinning kvenna eftir breytingarnar.

Möguleikarnir voru ekki margir og hagur þeirra versnaði. Það að konur hafi verið í meirihluta þeirra sem töldu sig ekki hafa stjórn á eigin lífi gæti verið vísbending um minna fjárhagslegt sjálfstæði þeirra og nauðsyn þess að treysta á tekjur makans. Konur höfðu einnig meiri áhyggjur af því en karlar að missa vinnuna eða rúmlega fjörutíu prósent. Áður tryggði ríkið þeim vinnu svo slíkar áhyggjur voru ef til vill afleiðing af breyttu og óöruggara umhverfi. Inn í þetta spila einnig nýjar áherslur í rekstri fyrirtækja og fækkun á starfsfólki í flestum iðngreinum ásamt því að atvinnurekendur tóku minna tillit til mæðra.

Konurnar virtust einnig hafa minni áhuga á hinum opna markaði og fyrirtækjarekstri. Þær vildu frekar vinna hjá ríkisreknum fyrirtækjum en karlar og höfðu síður áhuga á því að stofna eigið fyrirtæki. Það var í takti við viðhorf kvenna á Vesturlöndum. Staðalímynd atvinnurekandans var karlmaður og konur unnu mun fremur hjá ríkinu í menntunar- eða heilbrigðisgeiranum. Þótt búlgarskar konur hafi áður tekið fullan þátt í atvinnulífinu voru þær ekki eins tilbúnar til þess eftir breytingarnar. Konur voru í meirihluta útskrifaðra frá grunnháskólanámi en hlutföllin snúast við á efri stigum menntunar.

Hér verður ekki farið ítarlega yfir annað vandamál sem steðjar að stöðu kvenna í fyrrum kommúnistaríkjunum sem snýr að kynferðislegri misnotkun, vændi og klámi. Væri það efni í heila ritgerð. Það er þó vert að minnast á það í þessu samhengi því samkvæmt rannsóknum hefur kynferðislegt áreiti verið mikið vandamál á búlgörskum vinnustöðum sem og víða annars staðar. Það sama gildir um klám. Áður var það bannað með lögum en hefur aukist gríðarlega eftir fall kommúnismans.

Í kjölfarið hefur, undir lögmálum markaðarins, orðið sífellt meiri fegurðardýrkun líkt og annars staðar og hefur það gengið svo langt að fegurð kvenna getur skilið á milli þess hvort þær fái vinnu eða ekki. Jafnvel eru dæmi um að óskað sé eftir því sérstaklega í atvinnuauglýsingum að kvenkyns umsækjendur séu fallegir, þá sérstaklega þegar um er að ræða skilgreind kvennastörf.

Nýtt vandamál: atvinnuleysi
Mikið atvinnuleysi skall á eftir fall kommúnismans. Um leið hækkaði vöruverð og því enn meiri þörf á tvöföldum tekjum inn á heimilin en áður. Árið 1999 mældist atvinnuleysi 18% í heild í Búlgaríu, en í einstaka héruðum mældist það mun hærra eða allt að 40%. Mikill munur var milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það tókst ekki að brúa bilið milli þeirra starfa hjá hinu opinbera sem töpuðust við breytingarnar með því að skapa störf hjá einkageiranum. Þau fáu störf sem buðust gengu síður til kvenna vegna kynjamisréttis við ráðningar. Þar sem hætt var að vernda stöður kvenna var talið áhættusamt að fara út af vinnumarkaðnum vegna barneigna, því hætta var á að fá stimpil sem einhver með „fjölskylduáherslur“, sem gerði það erfiðara að komast aftur inn á vinnumarkaðinn síðar.

Það er því ennþá pressa á konum að sinna tvöföldu hlutverki. Konur frá fyrrum Austur-Þýskalandi eiga í meiri vandræðum með að vinna fyrir sér en áður og eru stór hluti atvinnulausra, bótaþega og fátækra. Auk þess var ríkisstofnunum líkt og barnaheimilum og súpueldhúsum lokað. Margar konur átti því ekki möguleika á að vinna fyrir sér og fjölskyldu sinni í breyttum aðstæðum. Sú staðreynd hafði áhrif á sjálfstraust þeirra og hefur neikvæð áhrif á félagsleg tengsl þeirra við samfélagið. Allir vinnufærir menn unnu í Austur-Þýskalandi, líka þeir fátæku. Aðeins sjúklingar, fíklar og ógæfumenn sinntu ekki vinnu og voru litnir hornauga. Atvinnan skapaði einstaklinginn og samfélagið og þess vegna er það enn erfitt fyrir Austur-Þjóðverja að sætta sig við atvinnuleysi. Átta árum eftir sameininguna voru austur-þýskar konur enn líklegri til þess að vera útivinnandi, þrátt fyrir helmingi hærra atvinnuleysi, eða 73% austur-þýskra kvenna á móti 62% vestur-þýskra kvenna.

No comments: