Atvinnuumhverfi kvenna

Vegna tæknilegra örðugleika verður að ýta á titil færslanna til þess að sjá þær í heild sinni.

Hröð umskipti urðu eftir fall kommúnismans á stofnunum og atvinnukerfi í Mið- og Austur-Evrópu. Í kjölfar breytinganna breyttust atvinnuaðstæður kvenna aftur vegna stefnubreytinga, endurskipulagningar á iðnaði og atvinnu og erfiðleika á atvinnumarkaðnum. Breytingarnar á atvinnumarkaðnum í fyrrum kommúnistaríkjunum eru áhugavert rannsóknarefni með tilliti til samskipta ríkjanna, markaðanna og þess hvernig konur koma að efnahagi samfélagsins. Tvisvar var nýju ríki og markaðsfyrirkomulagi komið fyrir í austrinu rétt eins og náttúrulegri tilraun á því hvernig áhrif stefnumótunar og stofnana hefur á kynjajafnrétti.

Við innreið markaðshyggjunnar inn í fyrrum kommúnistaríkin breyttust aðstæður á vinnumarkaði fyrir konur, en staða þeirra sem mæður og eiginkonur hélst óbreytt. Kolinsky og Nickel (2003) segja stöðu kvenna hafa versnað talsvert með tilkomu vestrænnar markaðshyggju. Ástæðuna telja þær vera þá að í fyrrum kommúnistaríkjunum hafi kynjajafnréttisbaráttan komið ofan frá og verið framkvæmd í gegnum ríkisstefnu ólíkt Vesturlöndum þar sem baráttan kom neðan frá, frá konunum sjálfum sem börðust fyrir réttindum kvenna. Þegar breytingarnar urðu blönduðust ólík vandamál ríkjanna varðandi kynjajafnrétti saman en ekkert þeirra leystist. Dæmi um það er frá sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands. Vestur-þýska kerfið kom ekki til móts við útivinnandi konur og austur-þýskar konur urðu að gangast undir þjónustuskerðingu. Enn þann dag í dag eru þýskar konur mun oftar heimavinnandi en í nágrannaríkjunum og má rekja það til þess að þýska kerfið gerir mæðrum erfitt fyrir að vera útivinnandi.

Árið 1989 voru konur í fyrrum kommúnistaríkjunum að meðaltali betur menntaðar heldur en karlar. Þrátt fyrir það voru þær aðeins í 14% stjórnunarstaða, þar af 65% í lægri stjórnunarstöðum, 25% í millistjórnunarstöðum og 10% í æðstu stjórnunarstöðum. Því betur sem konur voru menntaðar þegar breytingarnar urðu, því meira fengu þær úr starfi sínu og því ólíklegri voru þær til að gerast heimavinnandi (Heitlinger, 1993: 97).

Viðhorf til launaðrar vinnu kvenna
Undir kommúnisma var val kvenna og sjálfsákvörðunarréttur tekinn af þeim. Þær áttu ekki kost á því að velja eigin lífsbraut og eyddu öllum frítíma sínum í að sinna skyldum heimilisins þegar þær voru ekki að vinna skyldubundnar átta og hálfa klukkustund á dag.

„Búlgarskar konur gera sér grein fyrir því að rétturinn til þess að vinna, vera fjárhagslega sjálfstæður og sjálfum sér nægur eru óafturkræf mannréttindi, en innan ramma alræðislegs sósíalisma er þessi réttur líka skylda“ (Gavrilova o.fl., 1993: 20).

Eftir að kerfið féll tóku margar konur frelsinu fagnandi og vildu snúa aftur til gamalla hefða sem höfðu svo lengi verið bannaðar. Í Búlgaríu gengu ungar stúlkur og piltar í klaustur á ný og konur völdu í auknum mæli að vera heimavinnandi. Šiklová (1993: 76) sagði „[f]relsið tekur á sig ólíkar myndir. Þetta gæti gefið þá hugmynd að við séum að snúa aftur til feðraveldis, en þetta eru meira viðbrögð við nálægri fortíð okkar.“ Einhvern mun má þó sjá á milli viðhorfa þeirra fyrrverandi kommúnistaríkja sem eiga rætur í kaþólskri trú og þeirra sem voru mótmælendur fyrir kommúnisma. Það var þó ekki vegna þess að austur-evrópskar konur væru afturhaldsamari en aðrar konur, heldur vegna sögunnar. Í langan tíma urðu þær að vinna tvöfalda vinnu, innan og utan heimilis. Í mótstöðu við gamla kommúníska kerfið völdu þær og upphófu hefðbundin hlutverk kvenna sem mæður og eiginkonur.

Jafnvel þó konur vildu heldur fara aftur inn á heimilin við upphaf tíunda áratugarins voru ekki miklar líkur á að löggjöf eða stefna ríkjanna yrði á þá leið. Það má nefna þrjár ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi að alþjóðleg samtök, sem flykktust inn í löndin eftir að kommúnisminn féll, vildu tryggja jafnrétti og sjálfstæði kvenna með atvinnuþátttöku þeirra. Í öðru lagi vildu flest ríkjanna gjarnan komast inn í Evrópusambandið, en til þess þurfti að sýna fram á að jafnrétti kynjanna ríkti. Í þriðja lagi voru laun svo lág að tekjur beggja aðila voru nauðsynlegar til þess að lifa af.

Þrátt fyrir að sumar konur veldu hefðbundnari hlutverk í mótmælaskyni við alræðisstjórnina sem þær höfðu búið við, var vinnan fyrir langflestar konur frá fyrrum kommúnistaríkjum enn mjög mikilvæg og stór hluti sjálfsmyndar þeirra. Konur dæmdu jafnvel hver aðra út frá því hvort þær ynnu úti og hversu vel. Undir kommúnisma, þar sem líf fólks snérist um vinnu var hún ekki aðeins lífsviðurværi þeirra og sjálfsmynd heldur hafði hún einnig gríðarlegt félagslegt gildi. Vinnan var eini staðurinn þar sem fólk gat komið saman, spjallað og kynnst. Það hafði áhrif á þá ákvörðun meirihluta kvenna að vera útivinnandi, þar sem þær höfðu val, þrátt fyrir að það væri erfitt að samræma vinnuna heima og að heiman. Mið- og austur-evrópskar konur byggðu sjálfstraust sitt á vinnunni. Í spurningakönnun sem gerð var árið 1991 sögðust 76% prósent kvenna vinna til þess að sjá fyrir fjölskyldunni en 40% kvenna sögðust ekki vilja hætta að vinna, jafnvel þótt þær gætu það. Vinnan hafði því enn mjög mikið gildi fyrir flestar konur.

Viðhorfin héldust þau sömu eftir fall kommúnismans en forsendurnar voru ekki þær sömu eftir breytingarnar. Árið 1989 urðu ýmsar breytingar sem ógnuðu atvinnu kvenna og þátttöku þeirra í stjórnmálum og á opinberum vettvangi. Gott dæmi um það var niðurfelling á reglugerð í Póllandi sem verndaði starf einu fyrirvinnu heimilisins. Tilgangurinn með niðurfellingunni var að verja kerfið fyrir þeim sem misnotuðu það en breytingin kom í raun illa niður á einstæðum mæðrum. Annað dæmi er frá Tékklandi. Við upphaf tíunda áratugarins var hjónaband ennþá álitið vera besta leiðin fyrir ungar konur til þess að komast af. Ógiftar konur voru lægra settar í þjóðfélagsstiganum og þótti jafnvel betra að vera fráskilin heldur en einstæð. Slíkar hugmyndir tengdust ekki gamaldags hugsunarhætti heldur höfðu einfaldlega efnahagslegar ástæður. Á tímum kommúnista hafði ógift móðir lægri tekjur heldur en fráskilin móðir og hjón fengu stærri íbúðir heldur en ógift par. Í allri ringulreiðinni við breytingarnar vannst ekki tími til þess að breyta slíkum „smáatriðum“ strax. Þannig viðhéldust hefðbundnar hugmyndir sem þessar af hagkvæmnisástæðum. Þriðja dæmið er frá Búlgaríu. Árið 1992 var ákvæði um sömu laun fyrir sömu störf fjarlægt úr lögunum þar sem það þótti ekki henta í ríki með markaðshagkerfi. Þetta hafði í för með sér veikari stöðu kvenna í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.

Sameining Þýskalands endurspeglar hversu erfitt var að samræma ólík viðhorf sem höfðu myndast í austri og vestri. Þegar Þýskaland var sameinað árið 1990 kom í ljós að undir ólíkum stjórnarháttum ríkjanna tveggja hafði myndast gerólík stefna í kynjajafnréttismálum. Við sameininguna var hugmyndafræði Vestur-Þýskalands yfirfærð á Austur-Þýskaland. Þetta átti við um bæði hið opinbera og einkalífið. Austur-Þjóðverjar endurgerðu þó ekki vestur-þýska menningu heldur bjuggu einnig til sína eigin, sem þeir byggðu á fyrri reynslu og væntingum. Þetta átti sér í lagi við um konur og sjálfsmynd þeirra sem útivinnandi mæðra, sem enn í dag er ólík milli þessara tveggja hluta Þýskalands.

Kynbundin verkaskipting
Í skjóli jafnréttisins sem átti að ríkja undir kommúnisma komust karlmenn hjá því að bera ábyrgð gagnvart fjölskyldu sinni og höfðu raunar fáum skyldum að gegna gagnvart konu og börnum. Þetta „feðraveldisjafnrétti“ kom síðar í bakið á konum þegar frjáls atvinnumarkaður komst á. Í kerfi þar sem kvennastörf eru vel afmörkuð og mun verr metin en karlastörf eiga konur litla möguleika.

Karlar fengu fleiri tækifæri í nýja markaðshagkerfinu. Í Ungverjalandi, árið 1991, unnu mjög fáar konur við störf í einkageiranum, eða aðeins 6%, en vinna karla jókst á sama tímabili. Ungum og ómenntuðum konum var hættast við atvinnuleysi við upphaf breytinganna. Eins og Petrova (1993) sýnir fram á þá hélt slíkt misrétti áfram eftir að Sovétríkin féllu. Í rannsókn hennar á viðhorfum Búlgara til þeirra breytinganna sem höfðu orðið eftir fall kommúnismans kom í ljós að þrátt fyrir að fyrir að búlgarskar konur væru lagalega séð jafnar körlum og töldu helming vinnandi manna urðu þær fyrir misrétti á vinnumarkaði hvað varðar tegund atvinnu, tækifæri, laun og stöðuhækkanir. Árið 1990 var mikill fjöldi fyrirtækja stofnaður í Búlgaríu en aðeins 5,5% voru stofnuð af konum. Árið 1993 var atvinnuleysi kvenna 20% hærra heldur en karla en 70% kvenna kusu að vinna úti, jafnvel þótt maki þeirra aflaði nægra tekna.

Tafla 1. Viðhorf búlgarskra kvenna og karla til breytinganna árið 1993
konur % karlar % munur %*
Búast við að bæta nú lífskjör sín 8,1 13,1 5
Áhyggjur af því að missa vinnuna 43,1 35,8 7,3
Kjósa heldur vinna hjá ríkisreknu fyrirtæki 46,6 40,9 5,7
Kjósa heldur vinna hjá einkareknu fyrirtæki 22,3 33,8 -11,5
Engan áhuga á því að stofna eigið fyrirtæki 42,7 35,8 6,9
Þykja þau ekki hafa nein áhrif á eigið líf 32 25,5 6,5
Þykja lífið nú bjóða upp á fleiri tækifæri 16,9 26,7 -9,8
Trúa á guð 43,7 29 14,7
Þykja konur eiga að vera heimavinnandi 20 30 -10

*Jákvæð gildi sýna hærri prósentu kvenna og neikvæð sýna hærri prósentu karla í dálkinum lengst til hægri.

Aukinheldur kannaði Petrova viðhorf fólks þremur árum eftir breytingarnar (sjá töflu 1). Konur voru áberandi svartsýnni en karlar. Þær bjuggust síður við að bæta lífskjör sín, sem er í samræmi við bæði meira atvinnuleysi kvenna og litla möguleika þeirra til þess að fá áhrifamikil störf. Þeim þótti þær síður hafa áhrif á eigið líf. Það má rekja til þess að það að fylgja fyrirfram ákveðinni lífsleið var aðalsmerki kommúnískra ríkja og það hefur líklega áfram verið tilfinning kvenna eftir breytingarnar.

Möguleikarnir voru ekki margir og hagur þeirra versnaði. Það að konur hafi verið í meirihluta þeirra sem töldu sig ekki hafa stjórn á eigin lífi gæti verið vísbending um minna fjárhagslegt sjálfstæði þeirra og nauðsyn þess að treysta á tekjur makans. Konur höfðu einnig meiri áhyggjur af því en karlar að missa vinnuna eða rúmlega fjörutíu prósent. Áður tryggði ríkið þeim vinnu svo slíkar áhyggjur voru ef til vill afleiðing af breyttu og óöruggara umhverfi. Inn í þetta spila einnig nýjar áherslur í rekstri fyrirtækja og fækkun á starfsfólki í flestum iðngreinum ásamt því að atvinnurekendur tóku minna tillit til mæðra.

Konurnar virtust einnig hafa minni áhuga á hinum opna markaði og fyrirtækjarekstri. Þær vildu frekar vinna hjá ríkisreknum fyrirtækjum en karlar og höfðu síður áhuga á því að stofna eigið fyrirtæki. Það var í takti við viðhorf kvenna á Vesturlöndum. Staðalímynd atvinnurekandans var karlmaður og konur unnu mun fremur hjá ríkinu í menntunar- eða heilbrigðisgeiranum. Þótt búlgarskar konur hafi áður tekið fullan þátt í atvinnulífinu voru þær ekki eins tilbúnar til þess eftir breytingarnar. Konur voru í meirihluta útskrifaðra frá grunnháskólanámi en hlutföllin snúast við á efri stigum menntunar.

Hér verður ekki farið ítarlega yfir annað vandamál sem steðjar að stöðu kvenna í fyrrum kommúnistaríkjunum sem snýr að kynferðislegri misnotkun, vændi og klámi. Væri það efni í heila ritgerð. Það er þó vert að minnast á það í þessu samhengi því samkvæmt rannsóknum hefur kynferðislegt áreiti verið mikið vandamál á búlgörskum vinnustöðum sem og víða annars staðar. Það sama gildir um klám. Áður var það bannað með lögum en hefur aukist gríðarlega eftir fall kommúnismans.

Í kjölfarið hefur, undir lögmálum markaðarins, orðið sífellt meiri fegurðardýrkun líkt og annars staðar og hefur það gengið svo langt að fegurð kvenna getur skilið á milli þess hvort þær fái vinnu eða ekki. Jafnvel eru dæmi um að óskað sé eftir því sérstaklega í atvinnuauglýsingum að kvenkyns umsækjendur séu fallegir, þá sérstaklega þegar um er að ræða skilgreind kvennastörf.

Nýtt vandamál: atvinnuleysi
Mikið atvinnuleysi skall á eftir fall kommúnismans. Um leið hækkaði vöruverð og því enn meiri þörf á tvöföldum tekjum inn á heimilin en áður. Árið 1999 mældist atvinnuleysi 18% í heild í Búlgaríu, en í einstaka héruðum mældist það mun hærra eða allt að 40%. Mikill munur var milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það tókst ekki að brúa bilið milli þeirra starfa hjá hinu opinbera sem töpuðust við breytingarnar með því að skapa störf hjá einkageiranum. Þau fáu störf sem buðust gengu síður til kvenna vegna kynjamisréttis við ráðningar. Þar sem hætt var að vernda stöður kvenna var talið áhættusamt að fara út af vinnumarkaðnum vegna barneigna, því hætta var á að fá stimpil sem einhver með „fjölskylduáherslur“, sem gerði það erfiðara að komast aftur inn á vinnumarkaðinn síðar.

Það er því ennþá pressa á konum að sinna tvöföldu hlutverki. Konur frá fyrrum Austur-Þýskalandi eiga í meiri vandræðum með að vinna fyrir sér en áður og eru stór hluti atvinnulausra, bótaþega og fátækra. Auk þess var ríkisstofnunum líkt og barnaheimilum og súpueldhúsum lokað. Margar konur átti því ekki möguleika á að vinna fyrir sér og fjölskyldu sinni í breyttum aðstæðum. Sú staðreynd hafði áhrif á sjálfstraust þeirra og hefur neikvæð áhrif á félagsleg tengsl þeirra við samfélagið. Allir vinnufærir menn unnu í Austur-Þýskalandi, líka þeir fátæku. Aðeins sjúklingar, fíklar og ógæfumenn sinntu ekki vinnu og voru litnir hornauga. Atvinnan skapaði einstaklinginn og samfélagið og þess vegna er það enn erfitt fyrir Austur-Þjóðverja að sætta sig við atvinnuleysi. Átta árum eftir sameininguna voru austur-þýskar konur enn líklegri til þess að vera útivinnandi, þrátt fyrir helmingi hærra atvinnuleysi, eða 73% austur-þýskra kvenna á móti 62% vestur-þýskra kvenna.

Meira...

Stjórnmálaþátttaka kvenna

Bunce (1995) sagði að ástandið eftir kommúnisma hafi verið miklu meira en einungis breytingar yfir í lýðræði, það hafi verið bylting sem næði til stjórnmála, efnahags og samfélagsins (sbr. Lafont, 2001). Stéttabarátta var ofar öllu í kommúnísku samfélagi og var lögð áhersla á að öreigar tækju höndum saman gegn kúgunarvaldinu. Innan þeirrar hugmyndafræði var ekki svigrúm fyrir aðra réttindabaráttu, svo sem kvenréttindabaráttu. Líkur benda til þess að enn séu slík viðhorf ríkjandi í fyrrum kommúnistaríkjum en forgangsröðunin hefur breyst. Nú er mikilvægast að byggja upp og vinna að því að koma á lýðræði. Á meðan er enginn tími fyrir kvenréttindabaráttu. Todorova (1993) segir viðhorf sem þetta fela í sér óskhyggju. Í fyrsta lagi felur það í sér að kvenréttindi geti aðeins þróast þar sem ríkir efnahagslegt og félagslegt jafnvægi. Ef svo er væri eins hægt að segja að lýðræði geti aðeins þróast í slíku jafnvægi. Í öðru lagi gerir þetta viðhorf ráð fyrir forgangsröðun ólíkrar baráttu, fyrst lýðræði þá kvenréttindi. Þetta minnir óneitanlega á þá tálsýn kommúnista að kynjajafnrétti yrði að veruleika þegar kommúnisminn hefði náð fullum þroska.

Þótt breytingarnar yfir í markaðshagkerfi hafi vissulega að mörgu leyti verið austur-evrópskum konum erfiðar, þá hefur gleymst að athuga hugsanleg jákvæð áhrif frá arfi kommúnískrar hugsunar á hina nýju hugmyndafræði. Í stað þess að gera ráð fyrir því að áhrif markaðshyggju muni hafa sömu áhrif í Mið- og Austur-Evrópu og hún hefur á Vesturlöndum er hægt að gera ráð fyrir því að breytur líkt og kommúnísk fortíð hafi áhrif á val fólks því „áratuga reynsla sem var undanfari breytinganna verður ekki þurrkuð út með falli múrs; minning og reynsla búa innra með einstaklingunum sem eru orðnir nýtt viðfangsefni markaðshagkerfis í Mið- og Austur-Evrópu“ (Ghodsee, 2004).

Áhrifin af jafnréttisstefnu kommúnista létu þó á sér standa í fyrstu. Í Póllandi voru konur 23% þingmanna milli áranna 1980 og 1985, en aðeins 9% eftir kosningarnar haustið 1991. Þegar Tékkóslóvakía var aðskilin í tvö ríki, árið 1993, hafði stjórnmálaþátttaka kvenna í stjórnmálum minnkað. Á tékkneska þinginu voru konur 13% þingmanna en á því slóvaska voru þær 12,7%. Konur höfðu aðeins verið 10% fulltrúa í sameiginlegu þingi tékkóslóvaska sambandsríkisins árið áður, eða 30 af 300 fulltrúum. Engin kona leiddi neinn af samtals 40 stjórnmálaflokkum ríkjanna. Í spurningakönnun sem gerð var innan tékknesks stjórnmálaflokks í október 1991 kom í ljós að 89% aðspurðra héldu að flokkurinn myndi tapa ef kona leiddi flokkinn og konur voru oftar á þeirri skoðun en karlar. Í Ungverjalandi voru notaðir kynjakvótar í ungverska þinginu í tíð kommúnista. Konur voru því yfirleitt 20-30% þingmanna, en engin þeirra var í nefnd eða í embætti sem gat talist hafa veruleg pólitísk völd. Þetta mynstur hélst eftir fall kommúnismans. Feðraveldið virkaði enn, og konur voru ennþá álitnar fyrst og fremst hafa hefðbundnu hlutverki að gegna innan fjölskyldunnar. Árið 1992 hafði aðeins ein kona verið ráðherra í Ungverjalandi. Aðeins 28 þingmenn af 386 voru konur, þar af aðeins fimm sem voru kosnar í eigin kjördæmi. Hinar 23 fengu þingsæti sín í gegnum annað kerfi stjórnmálaflokkanna og báru því ekki sömu ábyrgð.

Staðalímynd pólskra kvenna við upphaf tíunda áratugarins fól í ekki í sér virka þátttöku þeirra í stjórnmálum. Það kom skýrt fram þegar Kristilegi þjóðarflokkurinn, sem var þá á þingi, lagði fram frumvarp um að banna fóstureyðingar í Póllandi og það var samþykkt. Árið 1986 voru aðeins 11%, miðstjórnar pólska verkamannaflokksins, konur. Eftir kosningarnar 1991 var engin kona í ríkisstjórninni. Á sveitastjórnarstiginu töldu konur 11% en aðeins 6,4 % voru í stjórnunarstöðum.

Þótt það líti út fyrir við séum að snúa aftur til stöðu kvenna í byrjun aldarinnar í Póllandi, er það aðeins hluta til satt. Mikilvægt og jákvætt hlutverk verður spilað af reynslunni sem kom til vegna pólitískt mótaðs “jafnréttis” beggja kynja síðan 1945, þrátt fyrir að það hafi verið sett á einræðislegan hátt og mjög gallaðan. Pólitíska og efnahagslega breytingin sem á sér stað í Póllandi, hversu neikvæð sem hún kann að virðast fyrir konur, ætti að vera álitin aðeins sem þáttur sem breytir ferlinu við að ná kynjajafnrétti (Titkow, 1993: 255).

Þegar lýðræði komst á í Búlgaríu árið 1989 voru aðeins 34 konur (8,3%) kosnar á þing í fyrstu almennu þingkosningunum í júní árið 1990. Kosningarnar í október 1991 breyttu þessu hlutfalli ekki. Í kosningunum árið 1992 komust aðeins þrjátíu og tvær konur á þing af samtals fjögur hundruð manna þingi. Fyrir breytingarnar höfðu þær verið um 21% en allan tíunda áratuginn voru þær um 10%. Árið 2001 varð breyting á og eru þær núna 26,6%, sem þá var hæsta hlutfall kvenþingmanna í fyrrum kommúnistaríki. Nokkrar konur hafa verið í efstu embættum ríkisins og konur eru ráðandi í geira frjálsra félagasamtaka. Ástæða er því til að ætla að fyrrum kommúnistaríkin munu líkjast Vesturlöndum hvað varðar stjórnmálaþátttöku kvenna, því þar sem þátttaka kynjanna var ekki jöfn undir kommúnisma hefur arfleifðin ekki áhrif á stjórnmálaþátttöku kvenna í nýju stjórnkerfi.


Kvenréttindahópar og samtök

Það urðu miklar breytingar við stjórnarskiptin en aðstæður kvenna breyttust ekki skyndilega árið sem kommúnisminn féll. Allt frá því á áttunda áratugnum höfðu íhaldsamar raddir heyrst. Konur áttuðu sig á því að staða þeirra væri slæm og margar fóru að halda því á lofti að lausnin á vandanum væri að hætta að vinna og hverfa aftur inn á heimilin. Þessar raddir urðu sífellt háværari og undirbjuggu það sem koma skyldi með innreið kapítalískrar hugsunar. Eftir breytingarnar höfnuðu kvennasamtök kommúnískum bakgrunni sínum í stað þess að byggja á því jákvæða sem hann hafði upp á að bjóða.

Grasrótarstarf kvenna hafði, eins og annarra, verið bannað og í staðinn voru stofnuð kvennasamtök innan kommúnistaflokksins. Slík samtök unnu samkvæmt flokkslínunni, en ekki endilega í þágu kvenna. Sú reynsla gerði margar mið- og austur-evrópskar konur tortryggnar í garð kvennasamtaka.

Kvenréttindabaráttan hefur tekið á sig ólíkar myndir í fyrrum kommúnistaríkjum. Í öllum tilvikum hefur reynst erfitt að takast á við þau vandamál sem steðjuðu að konum við breytingarnar. Havelková (1993) segir um gamla heimaland sitt, Tékkóslóvakíu:

„Skorturinn á áhuga á vandamálum kvenna á rætur sínar að rekja til þess einkennis að setja alltaf almenn mannleg vandamál ofar sérstökum kyntengdum málum, viðhorf sem var styrkt af pólitískri fyrir-byltingar mótstöðu, sem einblíndi á málefni pólitísks frelsis. Útgangspunkturinn að kyn sé náttúrulegt, ásamt sannfæringunni um að frelsun kvenna hafi verið náð og að enginn hafi í raun hagnast á því, þetta allt dregur úr athyglinni á málefnum kvenna“ (Havelková, 1993: 65).

Eftir flauelsbyltinguna í Tékkóslóvakíu hafa meira en sjötíu grasrótar kvenréttindahópar verið settir á fót. Þeir hafa hins vegar átt í vandræðum með dræma þátttöku, þeir fá litla athygli stjórnvalda og eiga í erfiðleikum með fjármögnun. Flestir þeirra hafa að lokum lagst af. Auk þess hafa margir aðgerðasinnar, sem helguðu líf sitt kvenréttindum meðan kommúnistastjórnin ríkti, snúið aftur til fyrri starfa, sem þeim var áður meinað að stunda.

Þar sem kirkjan og trúarlegir stjórnmálaflokkar hafa fengið aukið gildi hafa þeir haft áhrif á kvenréttindabaráttuna. Leiðandi hlutverk kaþólsku kirkjunnar í Póllandi skilur femínísku hreyfinguna þar frá öðrum fyrrum kommúnistaríkjum. Kirkjan hefur sakað femínista um að vera of vinstrisinnaða, of líka kommúnistum með kröfum sínum um jafnrétti og rétti kvenna til að gangast undir fóstureyðingar, og of hægrisinnaða með kapítalískum sérþörfum og einstaklingshyggju. Áhrifin komu einnig fram í áðurnefndu dæmi þegar fóstureyðingar voru bannaðar í Póllandi stuttu eftir fall kommúnismans.

Í Búlgaríu er ekki mikil samstaða meðal kvenna og þar voru fá kvenréttindafélög í byrjun tíunda áratugarins. Þau fáu sem voru virk boðuðu íhaldssamar hugmyndir um hlutverk kvenna en ekki femínískar hugmyndir. Konur vinna helst innan stjórnmálaflokka en ekki þverpólitískt með konum sem hafa aðrar stjórnmálaskoðanir. Ennþá er talsverð neikvæðni í garð vestrænna femínista sem orsakaðist af þeirri orðræðu sem tíðkaðist fyrir fall kommúnismans. Þeir eru gagnrýndir fyrir að styðja gildi markaðshyggju og þar sem mörgum búlgörskum konur þykir stéttabaráttan enn þann dag í dag vera æðri annarri baráttu gegn misrétti hefur reynst erfitt fyrir vestrænar femínískar hreyfingar að ná til búlgarskra kvenna. Frjálsu félagasamtökin sem starfa við að kynna kvenréttindi í landinu eru oft í meiri samskiptum við önnur frjáls félagasamtök heldur en við búlgarskar konur.

Óljóst er hvort lýðræðisvæðing og markaðshyggja sé meðalið gegn kynjamisrétti. Konur í fyrrum kommúnistaríkja horfðu vonaraugum fram á veg við upphaf níunda áratugarins. Lýðræðið skyldi bjarga þeim og fyrsti vísir þess var að litlir hópar kvennasamtaka tóku að myndast. En samfélagsbreytingarnar minnkuðu ekki hroka, misrétti og óvirðingu gagnvart konum. Reynt var að breyta hinu hefðbundna skipulagi í tíð kommúnismans en það tókst ekki og nú er það snúið aftur. Konur verða sífellt minna áberandi í samfélaginu þar sem fjölmiðlar eru mjög karllægir.

Kvenkúgunin kemur meðal annars fram í mikilli aukningu á klámi. Undir kommúnisma urðu breytingar á kynjajafnrétti vegna opinberrar jafnréttisstefnu. Sá árangur sem náðist á þeim tíma hvarf árið 1989 þegar íhaldssamari gildi, sem höfðu skotið rótum, tóku yfir. Eins og búlgörsku fræðikonurnar Gavrilova, Merdzanska og Panova (1993: 20) orðuðu það „af því leiðir, að búlgarskar konur eru þrælar hefða feðraveldisins, afturhaldssamrar hugsunar, sýndar-sósíalisma, og lágra lífsgæða“.

Meira...

Félagslegt umhverfi barneigna

Enn þann dag í dag kemur ríkið ekki til fulls á móts við útivinnandi konur í Evrópu. Í Þýskalandi vinnur hátt hlutfall kvenna hlutastarf til þess að samræma hlutverkin tvö. Mayer og Schulze (1993) komast að því að fyrir vestur-þýskar konur skapar það að stofna fjölskyldu togstreitu milli þess að verða móðir og að verða framakona en austur-þýskar konur kjósa heldur að blanda hlutverkunum saman, ef þær geta. Muninn má rekja til ólíkra viðhorfa til launaðrar vinnu kvenna í sögu þessara tveggja hluta landsins.

Líkt og konur annars staðar í Mið- og Austur-Evrópu tóku konur í Austur-Þýskalandi þátt í samfélaginu bæði sem eiginkonur og mæður og sem starfsmenn. „Útivinnandi mömmu“ fyrirmyndin varð til innan fjölskyldunnar, í fjölmiðlum og var stjórnað af ríkinu, sem studdi, hvatti og jafnvel skyldaði konur til þess konar lífsstíls. Eftir sameininguna hafa austur-þýskar konur hins vegar þurft laga sig að vestur-þýsku fyrirmyndinni. Þrátt fyrir að fá meira persónulegt frelsi og meiri frítíma en áður fá þær á móti minni stuðning frá ríkinu, sem breytir áherslum þeirra. Til dæmis dregur efnahagsleg nauðsyn þess að vinna úr hvatanum til þess að eignast börn og því krefjast breytingarnar sem urðu eftir sameininguna meiri skipulagningar á því hvenær eigi að stofna fjölskyldu og ákvarðanatöku um hvort eigi að stofna hana yfir höfuð. En þótt enginn vafi leiki á að fjölskyldu- og félagsstefna í Austur-Þýskalandi hafi verið betri gagnvart konum heldur en núgildandi stefna í Þýskalandi var hún byggð á alræði og feðraveldi. Það sama gildir um önnur fyrrum kommúnistaríki í Austur-Evrópu. Félagskerfi þeirra var mun kvenvænna en það kerfi sem tók við, en það var einnig þvingandi og var ekki skipulagt á forsendum kvenna.

Dagvistunarkerfið
Dagvistunarkerfi fyrrum kommúnistaríkjanna átti erfitt uppdráttar í nýja markaðshagkerfinu. Það var erfitt að réttlæta dýrt og umfangsmikið kerfi þegar efnahagur ríkjanna var svo bágur. Það var þó ekki eina ástæða þess að dagvistunarkerfi lögðust svo til af. Dagvistun barna var í algjörri andstöðu við hugmyndafræði Vestur-Þýskalands, þar sem það þótti nauðsynlegt heilsu barnanna vegna að mæður væru heimavinnandi. Í Austur-Þýskalandi árið 1989 voru hins vegar 80,2% barna í dagvistun fyrir börn til þriggja ára aldurs, 95,1% á leikskólum fyrir þriggja til sex ára og 81,2% barna voru í vistun eftir skólatíma fyrstu fjögur árin í grunnskóla. Eftir sameiningu Þýskalands dró mjög úr á dagvistunarúrræðum fyrir foreldra í Austur-Þýskalandi, þar sem hugmyndir Vestur-Þýskalands urðu ofan á.

Í Tékkóslóvakíu, undir kommúnisma, voru 95% barna í leikskóla en þar voru mun færri í dagvistun fyrir yngri aldurshópinn, þar sem slíkar stofnanir voru ekki vel séðar þar í landi. Við innreið markaðshyggju hefur hlutfallið lækkað því barnagæsla er ekki lengur rekin af ríkinu og einkadagvistun er ýmist of dýr eða of léleg að mati foreldra. Að sama skapi voru nánast öll börn í Búlgaríu, við upphaf tíunda áratugarins, á aldrinum þriggja ára til sex ára í leikskóla en nú ríkir sama ástand og annars staðar og þar hafa eldri konur í mörgum fjölskyldum hlaupið undir bagga en það er ljóst að þetta fyrirkomulag á þátt í því hversu mikið fæðingartíðni í Búlgaríu hefur lækkað síðan árið 1989. Það sama má segja um Pólland þar sem dagvistunum og leikskólum var einnig lokað vegna slæmrar efnahagslegrar stöðu landsins.

Lýsing Heitlinger (1993) á því hvernig það kom til að dagvistun barna í Tékklandi og Slóvakíu varð einkavædd eftir fall kommúnismans gefur góða hugmynd um hvernig fór fyrir dagvistun og þar með konum í mörgum fyrrum kommúnistaríkjunum. Stuttu eftir breytingarnar voru ríkisstyrkir til dagheimila lækkaðir umtalsvert. Árið 1990 voru fjárframlög til dagvistunar lækkuð um 36,5% og til leikskóla um 86,3%. Lækkun fjárframlaga til dagvistunarúrræða mættu ekki mikilli mótstöðu, þar sem slíkar stofnanir voru óvinsælar fyrir. Hins vegar gegndu leikskólar fyrir börn á aldrinum þriggja ára til sex ára mikilvægu menntunar- og uppeldishlutverki og höfðu þarlendir sérfræðingar mælt með þeim fyrir félagsþroska barna. Skólarnir voru yfirleitt staðsettir í fallegum, gömlum húsum, sem höfðu áður verið í eigu ríkra manna. Foreldrarnir höfðu aðeins þurft að borga 200 tékkóslóvaskar krónur á mánuði en raunkostnaður var 1500-2000 krónur fyrir hvert barn. Eftir stjórnarskiptin þóttu eðli og magn slíkra ríkisstyrkja vera óeðlileg auk þess sem hægt var að leigja húsnæðið nýju fyrirtækjunum sem verið að var að setja á fót. Afstaða nýrra stjórnvalda til leikskóla var sú að þeir væru „óhagstæðar kommúnískar stofnanir“ og kynnt var til sögunnar eins konar ríkisstyrkt einkavæðing þeirra, þrátt fyrir skýr dæmi meðal annars frá Kanada hafi sýnt að það sé nánast ómögulegt að einkavæða leikskóla ef gjaldið, sem foreldrar borga, eigi vera viðráðanlegt. Þar fyrir utan standi einkaaðilar ekki í röðum til að fá að opna leikskóla.

Staða foreldra, og þá sérstaklega kvenna var því öllu verri eftir fall kommúnismans hvað varðar dagvistun barna. Það að dagvistun væri nánast ekki til hafði margvísleg áhrif á getu kvenna til þess að geta unnið fyrir sér og fjölskyldu sinni, það átti sérstaklega við um einstæðar mæður.

Fólksfækkunarvandamálið
Líkt og í Búlgaríu jókst fæðingartíðni ekki í öðrum fyrrum kommúnistaríkjum eftir breytingarnar. Konur voru undir enn meira álagi en áður, því nú var dagvistunarkerfið í molum og atvinna var ekki lengur tryggð. Konum var enn frekar mismunað á atvinnumarkaðnum og sífellt fleiri völdu að fresta eða sleppa barneignum.

Frá sameiningu og fram á miðjan tíunda áratug lækkaði tíðni giftinga og barneigna í austurhluta Þýskalands um helming. Örlítil hækkun varð síðar á áratugnum en tölurnar hafa haldist jafnar síðan. Hullen (1998) komst að því að Vestur-Þjóðverjar höfðu byrjað að fresta því að stofna fjölskyldur áratugum fyrr. Austur-Þjóðverjar byrjuðu hins vegar ekki á því fyrr en eftir árið 1990 (sbr. Adler, 2002). Þótt margt hafi breyst í augum kvenna og ungar konur hafi hagað lífi sínu á margan hátt öðruvísi heldur en mæður þeirra, mátti greina einn áberandi þátt sem virðist hafa haldist milli kynslóða og það er tvöfalt líf, vinnu og fjölskyldu. Í dag leggja ungar konur þó meiri áherslu á rétta tímasetningu og að „njóta lífsins“ áður en börnin koma.

Seidenspinner og félagar (1996) komust að því í langtímarannsókn á ástæðum þýskra kvenna til að fresta barneignum að munur var á austur- og vestur-þýskum konum. Fyrir austur-þýskar konur var efnahagslegt sjálfstæði forsenda barneigna en fyrir vestur-þýskar konur var skortur á barnagæslu mikilvæg hindrun. Niðurstaða Seidenspinner var sú að breytingarnar á lífi austur-þýskra kvenna eftir sameiningu væru ekki merki um sjálfstætt val um að „nútímavæðast“, það er að segja að fresta barneignum, heldur væru þessar breytingar á viðhorfum tímabundnar, breytilegar og gerðar af nauðsyn (sbr. Adler, 2000).

Sérstaka athygli vekja ólíkar forsendur austur- og vestur-þýskra kvenna. Austur-þýskar konur hafa jákvæða forsendu, efnahagslegt sjálfstæði, fyrir barneignum en vestur-þýskar konur neikvæðar, skort á barnagæslu. Ef til vill má rekja það til ólíkra efnahagslegra aðstæðna milli austur- og vesturhluta Þýskalands. Vestur-þýskar konur skorti því ekki peninga til að greiða fyrir barnagæslu heldur fleiri leikskólapláss. Austur-þýskar konur skorti hins vegar efnahagslegar forsendur þess að borga fyrir barnagæslu. Eins er möguleiki að þar sem í Austur-Þýskalandi er hefð fyrir því að konur vinni fyrir sér, sé það eðlilegt þar að þær séu efnahagslega sjálfstæðar þegar þær eignast börn en þar sem konur í Vestur-Þýskalandi hafa vanist því að eiginmaður þeirra sé fyrirvinna heimilisins sé það ekki mikilvæg forsenda í þeirra augum.

Cooke (2004) kemst að því að líkurnar á öðru barni í austurhluta Þýskalands aukist til muna ef faðirinn er fyrirvinna heimilisins. Það er óháð þátttöku föðurins í heimilisstörfum. Ef báðir foreldrar eru útvinnandi stjórnast ákvörðunin um að eignast annað barn af því hversu mikinn þátt faðirinn tekur í heimilisstörfum og að, líkt og niðurstöður Seidenspinner sýndu, mæðurnar hafi nægilega há laun til þess að borga fyrir auka barnagæslu. Rekur Cooke orsakirnar til þess að í Þýskalandi séu engin félagsleg úrræði sem styðja útivinnandi mæður. Það voru engin merki um að staðalímyndin um karlmanninn sem fyrirvinnu heimilisins hafi haft áhrif í austurhluta Þýskalands. Hins vegar hafi hugmyndin um að fresta stofnun fjölskyldu haft áhrif.

Fóstureyðingar
Í óörygginu sem ríkti í Austur-Evrópu stuttu eftir sameininguna fjölgaði fóstureyðingum og ófrjósemisaðgerðum. Mikið atvinnuleysi ríkti, laun lækkuðu, dagheimilum var lokað, getnaðarvörnum var ekki lengur dreift frítt til kvenna og dæmi voru um að atvinnurekendur hvettu til ófrjósemisaðgerða. Á sama tíma breyttist umræðan um fóstureyðingar og varð líkari umræðunni sem á sér stað í Bandaríkjunum. Hún fjallaði meira um siðferði þess að eyða fóstri, en ekki um vandamál sem fylgja fóstureyðingum fyrir konur og áhyggjum af fólksfækkun. Tveir pólar takast á. Annars vegar þeir sem styðja val kvenna og hins vegar þeir sem styðja rétt fóstursins til lífs. Tilkoma nýrra trúarhópa kaþólikka og mótmælenda, sem stofnaðir hafa verið í mörgum fyrrum kommúnistaríkjum, hafa styrkt málstað þeirra sem eru á móti fóstureyðingum.

Í Tékkóslóvakíu brást ríkisstjórnin við með því að mynda nefnd um málið. Það var þó ljóst að í ríki þar sem 180.000 löglegar og ólöglegar fóstureyðingar voru framkvæmdar árlega var ekki hægt að skrúfa algjörlega fyrir þær á einu bretti. Niðurstaðan varð sú að fóstureyðingar voru áfram leyfðar í Tékkóslóvakíu. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2002 um fóstureyðingastefnur í heiminum kemur fram að:

„Tíðni fóstureyðinga í Slóvakíu hækkaði frá 30,5% árið 1984 í 43,1% árið 1988. Hins vegar, lækkaði tíðnin mikið á tíunda áratugnum. Hún var áætluð um 19,7 fóstureyðingar á hverjar 1000 konur á aldrinum 15-44 ára árið 1996. Ríkisstjórnin áætlaði heildartíðni fóstureyðingar 4,9 prósent árið 1999“ (Sameinuðu þjóðirnar, 2002).

Þegar Austur- og Vestur-Þýskaland var sameinuð urðu heitar umræður um fóstureyðingar. Fyrst og fremst snérust þær um það hvort konur í austurhlutanum þyrftu að gangast undir íhaldssamari lög Vestur-Þýskalands eða öfugt.

„Lagalega umræðan um fóstureyðingar er hluti af því að endurskilgreina félagslegt hlutverk þýskra kvenna, að kynna aftur til sögunnar trúarleg sjónarmið í fyrrverandi kommúnista kerfinu, halda slíkum gildum í vestrinu, og að viðhalda stjórn ríkisins yfir barnsburðargetu kvenna“ (Funk, 1993: 198).

Í byrjun var ákveðið að ólík löggjöf fyrir austur og vestur myndu gilda í tvö ár, en eftir það yrði að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Málamiðlunin voru lög sem kváðu á um skyldubundna ráðgjöf fyrir konur þegar þær sækja um fóstureyðingu, en lokaákvörðunin lægi hjá konunni sjálfri og hún þyrfti ekki að ræða persónuleg mál sín eða gefa upp ástæðu fyrir fóstureyðingunni. Undir áhrifum frá löggjöf fyrrum Austur-Þýskalands kváðu nýju lögin einnig á um að öll börn ættu rétt á leikskólaplássi við þriggja ára aldur og að konur yngri en 21 árs ættu að fá getnaðarvarnarpilluna ókeypis. Skylt var að hafa bæði trúarlegar og veraldlegar ráðgjafamiðstöðvar um fóstureyðingar í hverju fylki. Gallinn við það ákvæði var að trúarlegar ráðgjafamiðstöðvar áttu auðveldara með að afla fjár og voru augljóslega ekki hlutlausar í afstöðu sinni til fóstureyðinga. Árið 1991 voru 51% ráðgjafamiðstöðva í Austur-Evrópu trúarlegar, þrátt fyrir að íbúarnir væru að meirihluta til trúlausir.

Búlgaría sker sig úr en þar eru fóstureyðingar ennþá mjög algengar og eru ekki litnar hornauga. Þar er hlutfall fóstureyðinga hærra heldur en fæðinga. Þær eru hins vegar aðeins fríar ef konan er undir lögaldri eða hefur verið nauðgað en eru svo ódýrar að langflestar konur hafa efni á að gangast undir slíka aðgerð.

Fæðingarorlof og mæðrastyrkir
Fæðingarorlof og mæðrastyrkir í fyrrum kommúnistaríkjum hafa í flestum tilfellum verið skýrasta dæmið um áhrif arfleifðar kommúnismans. Konur og foreldrar, njóta oft sterkari réttar til lengra orlofs, verndun á starfi meðan á því stendur og til bótagreiðslna. Virðist þessi málaflokkur njóta sérstaklega mikils fylgis miðað við aðra sem snúa að kynjajafnrétti, þrátt fyrir atlögur markaðshyggjuaflanna. Til dæmis þurfti félagsmálaráðuneytið í Búlgaríu að láta undan þrýstingi frá fjármálaráðuneytinu, Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í átökum um fæðingarorlof.

Í Ungverjalandi gilti regla um starfsvernd á meðan á fæðingarorlofi stóð, en eftir að kommúnismans féll var reglan afnumin. Þær konur sem höfðu verið í fæðingarorflofi á meðan breytingarnar gengu yfir misstu því flestar fyrra starf sitt. Þrátt fyrir það hafa ýmis félagsleg réttindi kvenna frá fyrri tíma haldist. Til dæmis er staða kvenna í Búlgaríu enn vernduð í þrjú ár eftir barnsburð og ef þær vilja snúa aftur út á vinnumarkaðinn áður en þrjú ár hafa liðið má faðir barnsins taka feðraorlof restina af tímabilinu, þótt það gerist nánast aldrei.

Petrova (1993) kemst að því að 64% búlgarskra kvenna þótti þriggja ára fæðingarorlof vera nægilegt. Hinar vildu lengja leyfið enn meira. Meirihluti kvenna vildu komast út á vinnumarkaðinn aftur. Hluti af ástæðunni gæti verið sú að laun kvenna eru of lág til þess að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þeirra, þá sérstaklega við skilnað. Í þeim tilvikum þurfa konur með börn oft að leita sér aðstoðar annarra, því meðlög með börnum eru mjög lág. Í dag geta búlgarskar konur tekið alls 135 daga í barneignaleyfi með möguleika á framlengingu til tveggja ára. Á meðan 135 daga barneignaleyfinu stendur fá konur full laun en eftir það fá þær lágmarkslaun og barnabætur frá ríkinu en sú greiðsla dugir skammt, þá sérstaklega fyrir konur í þéttbýli. Konur geta einnig tekið eitt ár í launalausu leyfi en þar sem atvinnuleysi er hátt og samkeppnin um störf mjög mikil hafa þessi verndandi lög öfug áhrif á samkeppnisstöðu kvenna og er þeim mismunað á grundvelli laganna. Aðrar lagabreytingar líkt og þær að leyfa viðskiptaferðalög til annarra landa, sem var bannað undir kommúnisma, hefur einnig veikt samkeppnisstöðu kvenna á vinnumarkaði þar sem þær komast síður frá skyldum sínum gagnvart heimili og börnum.

Konur í Tékkóslóvakíu voru vanar félagslegri verndun móðurhlutverksins. Þær höfðu vanist því að hafa úr ýmsum möguleikum að spila hvað varðar þjónustu og bætur. Það gaf þeim ákveðið val um hvernig þær tvinnuðu saman launaða vinnu og móðurhlutverkið. Árið 1990 voru lög um barnabætur víkkuð út til kvenna sem áður höfðu ekki notið þeirra. Konur sem áttu aðeins eitt barn og konur sem höfðu aldrei unnið fengu nú bætur líka auk þess sem feður gátu einnig sótt um barnabætur í fyrsta sinn. Það að gera fæðingarorlof og barnabætur hlutlaust gagnvart kyni var mikilvægt skref í átt að jafnrétti. Hins vegar er eðli slíkra úrbóta að á meðan greiðslurnar eru flatar og upphæð þeirra fyrir neðan lágmarkslaun eru litlar líkur að feður, sem jafnan hafa hærri laun, nýti sér möguleikann.

Meira...